Aðgerðir til að draga úr losun vegna neyslu taldar upp í nýrri skýrslu

16.10.24 | Fréttir
Sveriges klimat- och miljöminister Romina Pourmokhtari.
Ljósmyndari
Kotryna Juškaitė/Nordregio

Markus Larsson, doktor í hagfræði hjá KTH afhendir Rominu Pourmokhtari, loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar, skýrsluna Policy Options for Reducing Consumption-Based Emissions .

Það er betra að efla þau stjórntæki sem þegar hafa verið innleidd en að leggja til ný til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna neyslu. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu frá Norrænu ráðherranefndinni.

Í skýrslunni Policy Options for Reducing Consumption-Based Emissions eru taldar upp um eitt hundrað pólitískar aðgerðir sem hægt er að ráðast í sem stuðlað geta að því að draga úr losun vegna neyslu. Af þeim hafa norrænir fræðimenn og sérfræðingar greint 21 aðgerð sem þeir telja að lofi bestu og loks raðað 12 af þeim niður út frá því hve líklegt er að þær geti dregið úr losun og hversu framkvæmanlegar þær eru.

Efst á listanum eru reglugerðartengdar kröfur og staðlar, þ.e. reglur og ákvæði sem takmarka losun, opinber innkaup og aðgerðir sem draga úr hvötum til þess að ferðast til og frá vinnu með bíl.

Réttlátar aðgerðir

Sérfræðingarnir sem að skýrslunni standa undirstrika að auðveldara sé að skerpa á þeim stjórntækjum sem þegar hafa verið innleidd en að leggja til ný. Með því að setja til dæmis strangari reglur um losun eða hækka skatt má til dæmis ná árangri.

Á sama tíma segja sérfræðingarnir að almenningur verði að sjá stjórntækin sem sanngjörn og bæta verði þeim þjóðfélagshópum það upp sem þau bitni harkalega á.

Sérfræðingarnir leggja þó áherslu á að engin ein kraftaverkalausn sé til heldur ráðleggja þeir stjórnvöldum að vinna með margar aðgerðir samtímis. Það getur snúist um að blanda saman hvetjandi og letjandi aðgerðum eða tryggja að tilgangur stjórntækja sem hafa í för með sér erfiðleika eða kostnað fyrir fólk sé vel kynntur.

Þörf á aðgerðum

Sérfræðingarnir eru á einu máli um að aðgerða sé þörf.

„Losun gróðurhúsalofttegunda sem hafa áhrif á loftslagið hefur dregist saman á Norðurlöndum en samdrátturinn er of hægur. Við vitum að losunin þarf að fara nánast niður í núll á næstu áratugum en þróunin bendir til þess að það muni ekki takast. Vonandi mun þessi skýrsla flýta fyrir samdrættinum,“ segir Markus Larsson, doktor í hagfræði við KTH og einn höfunda skýrslunnar.

Larsson kynnti skýrsluna á ráðstefnunni Sustainable Living Summit í Stokkhólmi á þriðjudaginn. Ráðstefnan rak endahnútinn á verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar,  Sustainable Living, sem ráðherranefndin fjármagnaði og norræna rannsóknarstofnunin Nordregio hélt utan um.

Loftslagsráðherra fékk skýrsluna afhenta

Á ráðstefnunni afhenti Markus Larsson Rominu Pourmokhtari, loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar, eintak af skýrslunni.

„Sustainable Living-verkefnið er yfirlýsing og vitnisburður um kraftinn í aðgerðum sem nýta samtakamáttinn. Það minnir okkur á að sjálfbær þróun er ekki bara markmið heldur leiðangur sem krefst aðkomu allra sviða samfélagsins til þess að við náum markmiðum okkar,“ sagði Pourmokhtari.

Svíþjóð gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár og leiðir því vinnuna að því að uppfylla markmið hinnar norrænu framtíðarsýnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030.

Í tengslum við ráðstefnuna var Sustainable Living Hub einnig kynnt en þar er öllu efni sem tengist Sustainable Living-verkefninu safnað saman á einn og sama stað. Þar er meðal annars að finna rannsóknarniðurstöður, hagnýt viðmið, fræðsluefni, vefnámskeið og tillögur á sviði stefnumörkunar.