Merkingarkerfi virkar ekki sem skyldi: Allt of mikið af mat er fleygt

13.10.24 | Fréttir
Ljósmyndari
Ricky Molloy/norden.org

Allt of mikið af matvælum er fleygt, jafnvel þótt ekkert sé að þeim. 

Allt of mikið af matvælum er fleygt, jafnvel þótt ekkert sé að þeim. Mun meiri möguleikar eru faldir í merkingarkerfinu „best fyrir“, sem við eigum að leggja áherslu á, segir Tove Elise Madland, formaður sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs.

Til að draga úr matarsóun í smásölukeðjunni er orðalagið „best fyrir“ notað í stað þess að gefinn sé upp síðasti neysludagur hinna ýmsu matvæla. Þetta á við um matvörur þar sem áferð eða bragð innihaldsins kann að breytast eftir viðkomandi dagsetningu en þar sem ekki er hættulegt að neyta vörunnar þótt komið sé fram yfir dagsetninguna. Tilgangur merkingarkerfisins er að gefa neytendum betra færi á að meta sjálfir gæði matvörunnar, þrátt fyrir að komið sé fram yfir dagsetningu.

Því miður fleygja smásalar stórum hluta varanna um leið og dagsetningin „best fyrir“ er liðin. Sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs telur sökina liggja í leiðbeiningum um merkingar, sem í dag leggja þá skyldu á smásala að ákvarða hvort enn sé öruggt að neyta vöru. Til að taka þá ákvörðun þarf í sumum tilfellum að rjúfa umbúðir og þá verður varan ósöluhæf.

Ekki ætti að fleygja matvælum fyrr en hægt er að staðfesta að þau séu í raun og veru ekki lengur neysluhæf. Við teljum þessa ábyrgð eiga að liggja hjá neytandanum, rétt eins og fyrirhugað var þegar merkingarkerfið var tekið í notkun. Slíkt yrði loftslaginu, umhverfinu og efnahagnum til góða.

Tove Elise Madland, formaður sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs

Þess hefur nefndin ákveðið einróma að leggja tillögu fyrir Norrænu ráðherranefndina um að breyta leiðbeiningunum til að neytendur fái sjálfir tækifæri til að meta hvort „best fyrir“-vara sé neysluhæf. Auk þess telur nefndin að gera eigi þá kröfu til verslana að þær lækki verð þegar „best fyrir“-dagsetning nálgast eða er liðin.