Aukinn hreyfanleiki á Norðurlöndum

20.06.18 | Fréttir
Mann på fly
Ljósmyndari
Bambi Corro/Unsplash
Á hverju ári flytja 45.000 íbúar Norðurlandanna til annars norræns ríkis. Á Norðurlöndum hefur mikill árangur náðst í að auka hreyfanleika milli ríkjanna en ný skýrsla frá Norrænu ráðherranefndinni sýnir að enn má gera betur.

Skýrslan „Norðurlönd - ný tækifæri“, sem fjallar um hreyfanleika á Norðurlöndum, var kynnt fyrir norrænu samstarfsráðherrunum þann 20. júní 2018. Í skýrslunni er fjallað um nokkur svið þar sem auka má norrænt samstarf til að greiða fyrir hreyfanleika einstaklinga og fyrirtækja þvert á landamæri. Um er að ræða samstarf á sviði norrænnar sjálfsvitundar, tungumála, menntunar, samgangna, löggjafar, heilbrigðismála, stafrænna lausna, atvinnumála og viðskipta.

- Hreyfanleiki og frjáls för eru einn af hornsteinum norræns samstarfs. Það er því mikilvægt að samstarf um hreyfanleika sé í sífelldri þróun. Nú verðum við að greiða fyrir því að fyrirtæki geti einnig starfað þvert á landamæri á Norðurlöndum, segir Dagfinn Høybråten.

Í norrænu samstarfi um hreyfanleika hefur frá upphafi verið einblínt á einstaklinga. Sífellt auðveldara hefur orðið fyrir fólk að flytjast milli landanna. Það hefur skapað víðtæka sátt meðal almennings um gildi norræns samstarfs. Í spurningakönnun sem gerð var meðal Norðurlandabúa kom í ljós að hreyfanleiki var eitt mikilvægasta samstarfssviðið að mati þeirra sem svöruðu.

Norðurlönd - ný tækifæri

Það er Ingvard Havnen, fyrrum sendiherra Noregs í Danmörku, sem skrifaði skýrsluna „Norden - ný tækifæri“.

- Enn eru tækifæri til aukins norræns samstarfs. Í skýrslunni kynni ég 16 tillögur að aðgerðum sem auka hreyfanleika og samþættingu á Norðurlöndum. Ég vek sérstaka athygli á tillögu um að íbúar geti notað rafræn skilríki í öllum ríkjum Norðurlandanna fyrir lok ársins 2020. Ef ríkisstjórnirnar ná því fram mun það hafa mikla þýðingu fyrir bæði almenning og atvinnulífið. Það yrði stór áfangi í norrænu samstarfi og kannski jafn mikilvægt og þegar stofnað var til vegabréfasambands á sínum tíma. Ef fólki er gert auðveldara að búa, starfa og mennta sig í öðrum ríkjum Norðurlandanna, fær það betra tækifæri á að uppfylla drauma sína og væntingar, segir Ingvard Havnen.

Havnen leggur einnig til að Norðurlönd sæki í sameiningu um að Vetrarólympíuleikarnir verði haldnir á Norðurlöndum árið 2030 og segir að það myndi styrkja sameiginlega norræna sjálfsvitund og samheldni. Hann telur að það myndi draga einstaka athygli að Norðurlöndum sem hugtaki og vörumerki. Vetrarólympíuleikar á Norðurlöndum myndu einnig draga athygli að sameiginlegum gildum okkar.

Skýrslan um hreyfanleika leggur grunn að framkvæmdaáætlun um áframhaldandi samstarf á sviði hreyfanleika á Norðurlöndum. Framkvæmdaáætlunin verður kynnt fyrir samstarfsráðherrunum í febrúar 2019.