Færeyjar í fyrsta sinn á CSW

17.03.16 | Fréttir
 Eydgunn Samuelsson jämställdhetsminister Färöarna
Færeyjar taka nú í fyrsta sinn þátt í kvennanefndarfundi SÞ, CSW. Eydgunn Samuelsson, ráðherra jafnréttismála í Færeyjum, er stödd í New York til að sækja innblástur fyrir stefnu landsstjórnarinnar í málaflokkinum.

 

Þemað í ár

Þema kvennanefndarfundarins í ár er tengsl jafnréttis kynjanna og sjálfbærrar þróunar. Eydgunn Samuelsson telur að þarna séu afdráttarlaus tengsl til staðar.

„Ég tel mikilvægt að Færeyjar hafi rödd í umræðunni um jafnréttismál. Við Færeyingar erum að móta skipulagðari stefnu í jafnréttismálum um þessar mundir, og því sæki ég innblástur hingað,“ segir Eydgunn Samuelsson, ráðherra í hálfs árs gamalli landsstjórn Færeyja.

Hún greinir frá því að Færeyingar hafi átt við vandamál að stríða vegna kynjaskipts vinnumarkaðar. Helmingur færeyskra kvenna vinnur hlutastörf, og eru tekjur kvenna lágar eftir því.

„Margar færeyskar konur fara til náms í Danmörku og margar þeirra eru mun betur menntaðar en færeyskir karlmenn. En þessar vel menntuðu konur snúa ekki aftur til Færeyja, vegna þess hve samfélagið og vinnumarkaðurinn bera sterk einkenni feðraveldis.“

Jafnrétti lykillinn að sjálfbærni

Þess vegna er jafnrétti kynjanna lykillinn að sjálfbæru samfélagi í Færeyjum, að sögn Eydgunn Samuelsson. Þar eru stór viðfangsefni framundan þegar kemur að lýðþróun. Í hnotskurn ganga þau út á að fá konurnar aftur til Færeyja. Landsstjórnin vinnur nú að framkvæmdaáætlun sem á að auka kynjajafnrétti á vinnumarkaði. Þar gegnir fæðingarorlof karlmanna lykilhlutverki. Landsstjórnin lengdi feðraorlofið nýlega um tvær vikur. Þá gegnir Piger i STEM, norrænt kortlagningarverkefni um staðlaðar kynjaímyndir í vali á menntun, einnig mikilvægu hlutverki í vinnu landsstjórnarinnar að framkvæmdaáætluninni.

„Sjálfbærni og jafnrétti fylgjast ótvírætt að,“ segir Eydgunn Samuelsson.