Femínismi, karlmennska og jafnrétti á Norðurlöndum

27.08.14 | Fréttir
Jafnréttissamstarf norrænu ríkisstjórnanna hefur skilað árangri sem löndin geta miðlað til annarra heimshluta. Enn má þó gera betur til að virkja karlmenn til þátttöku í jafnréttisstarfi. Eygló Harðardóttir jafnréttisráðherra, frú Vigdís Finnbogadóttir og Margot Wallström, fyrrum sérlegur erindreki SÞ á sviði kynferðisofbeldis á átakasvæðum, sátu í pallborði í umræðum á 40 ára afmælisráðstefnu Norðurlandasamstarfs á sviði jafnréttismála sem fram fór í Reykjavík á þriðjudag.

Þær voru sammála um að þrátt fyrir fjögurra áratuga samstarf um jafnréttismál séu málefni jafnréttis og femínisma enn umdeild á Norðurlöndum og þyki jafnvel ögrandi á stundum. Því sé mikilvægt að halda jafnréttisgildum að börnum strax í leikskóla.

Vigdís lýsti yfir sérstökum áhyggjum af karlmönnum sem flosna ungir upp úr námi.

„Ég er sannarlega femínisti, en einnig maskúlínisti – ég berst fyrir jafnrétti allra. Karlmenn eru orðnir dálítið smeykir við konur, því þeir hafa séð styrk þeirra. Það eru afskaplega eðlileg viðbrögð að hunsa það sem maður óttast,“ sagði Vigdís.

„Á hinn bóginn er gleðiefni að ungir íslenskir karlmenn skuli leggja æ meiri áherslu á gildi þess að annast börnin sín,“ sagði Eygló Harðardóttir. „Þar hefur orðið greinileg hugarfarsbreyting hvað karlmennskuhugtakið snertir.“

Karlmenn ræði jafnrétti

Hugarfarsbreytingar gerast hægt, stundum of hægt fyrir samfélagið. Margot Wallström tók upp hanskann fyrir jákvæða mismunun.  

„Stundum er jákvæð mismunun nauðsynleg til að ýta við ríkjandi valdajafnvægi og hleypa fleiri konum að valdastöðum, sem ella tæki áratugi eða lengur. Ég lít svo á að við verðum að nýta þau tæki sem okkur bjóðast,“ sagði Margot Wallström.

Að mati Vigdísar Finnbogadóttur er það öflugri og langvinnri undirbúningsvinnu að þakka að í norrænum löndum hafa konur verið kosnar í embætti forseta og forsætisráðherra á undan mörgum öðrum löndum heimsins. Til að aðstoða önnur lönd á þessari vegferð leggur hún eftirfarandi til:

„Karlmenn í valdastöðum um allan heim ættu að funda reglulega til þess að ræða jafnréttismál. Ef valdamestu karlar heimsins kæmu saman á slíkum ráðstefnum yrðu viðhorfin fljótari að breytast.“