Menningarmálaráðherrar styrkja lifandi tónlistarflutning á Norðurlöndum

02.11.16 | Fréttir
Kulturministrar 2016
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Norrænu menningarmálaráðherrarnir hafa ákveðið að verja einni m.da.kr., til að byrja með, til þess að styðja við lifandi tónlistarflutning á tímabilinu 2017–2019. Þetta er gert í samstarfi við Norræna menningarsjóðinn og er markmiðið að fjölga tónleikasviðum fyrir norræna listamenn á Norðurlöndum.

Aðgerðir á sviði tónlistar 2017–2019

Áætluninni er ætlað að fjölga tónleikasviðum fyrir norræna listamenn á Norðurlöndum og þar með atvinnutækifærum þeirra og möguleikum á útbreiðslu til annarra landa. Hún á einnig að efla tengslanet milli skipuleggjenda tónleika og tryggja að norrænir listamenn haldi áfram að þróa hæfileika sína. Ennfremur er ætlunin að styrkja ímynd norrænnar tónlistar, einkum meðal yngri kynslóðarinnar. Síðastliðið eitt til eitt og hálft ár hefur Norræni menningarsjóðurinn unnið að skipulagningu áætlunarinnar, sem verður ýtt úr vör í desember 2016. Norræni menningarsjóðurinn veitir fé til áætlunarinnar til þriggja ára í senn.

Nordic Matters

Réttu ári eftir að norrænu menningarmálaráðherrarnir veittu styrk til norrænnar hátíðar sem fram fer á Southbank Centre í London árið 2017, hafa hinir bresku skipuleggjendur hátíðarinnar upplýst um nokkra af þeim listamönnum sem staðfest hefur verið að komi fram á Nordic Matters. Menningarmálaráðherrarnir eru afar áhugasamir um verkefnið:

„Norræna ráðherranefndin er stolt af því að eiga í samstarfi við Southbank Centre um verkefnið Nordic Matters. Þetta er frábært tækifæri til að greiða fyrir og vekja athygli á norrænni list og menningu utan Norðurlandanna – einkum með tilliti til jafnréttis, sjálfbærni og barna og ungmenna. Sú menningarmiðlun sem á sér stað á milli listamannanna sem taka þátt frá Norðurlöndum og Bretlandi og áhorfenda þeirra er mikilvægur og miðlægur þáttur í Nordic Matters,“ segja menningarmálaráðherrarnir.

Í nóvember 2015 völdu norrænu menningarmálaráðherrarnir Southbank Centre í London, úr fjölda alþjóðlegra umsækjenda, sem brennidepil nýs sameiginlegt verkefnis um norræna list og menningu. Við dagskrárgerð Nordic Matters hefur Southbank Centre lagt áherslu á miðlæg norræn þemu á borð við leik, sjálfbærni og jafnrétti, og verður norræna dagskráin mikilvægur hluti þeirrar föstu mennigardagskrár sem Southbank Centre býður upp á.

Nordic Matters verður formlega ýtt úr vör þann 13. janúar, þegar norrænu menningarmálaráðherrarnir taka þátt í opnunarviðburði ásamt breskum kollegum sínum í London.

 

  • Sjá frétt um Nordic Matters frá Southbank Centre

 

 

Tengiliður