Menntun grundvöllur velferðarinnar

28.10.14 | Fréttir
Alexander Stubb och Helle Thorning-Schmidt
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Menntamálin voru fyrirferðarmest í umræðum á leiðtogafundi við upphaf þings Norðurlandaráðs, þar sem málefni menntunar, aðlögunar og vinnumarkaðar voru í brennidepli.

Forsætisráðherra Danmerkur, Helle Thorning-Schmidt, hóf umræðurnar með því að leggja áherslu á gildi menntunar fyrir áframhaldandi velferð á Norðurlöndum:

„Norðurlandaþjóðirnar eiga mikið sammerkt, til dæmis það viðhorf að menntun sé fyrir fjöldann en ekki fáa útvalda, sem er grundvöllur samfélagsgerðar okkar.“

Í ár fagna Danir 200 ára almennri skólaskyldu fyrir stúlkur og drengi, nokkuð sem Thorning-Schmidt telur hafa stuðlað að jafnræði og jafnrétti í dönsku samfélagi. Norrænt samstarf hefur ennfremur aukið möguleika ungs fólks á að mennta sig í hvaða norræna landi sem er. Fjöldi ungmenna á Norðurlöndum nýtir sér þá möguleika.

Stefan Löfvén, nýr forsætisráðherra Svíþjóðar, minnti á að enn mætti bæta aðstæður til skiptináms með því að fjarlægja stjórnsýsluhindranir á svæðinu.

Yfirstandandi þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi er fyrsta norræna þing Stefans Löfvén, sem þó hefur mikla og góða reynslu af samstarfi innan norrænu verkalýðshreyfingarinnar:

„Ég er sannfærður um að góðar lausnir í málefnum menntunar, aðlögunar og vinnumarkaðar muni gera mikið til að styrkja stöðu Norðurlanda í alþjóðlegu samhengi.“

Alexander Stubb, forsætisráðherra Finnlands, lagði þetta til málanna: „Viðhorf okkar er sérstakt að því leyti að við teljum ekki að opinn vinnumarkaður og sterkt félagslegt öryggisnet séu ósamræmanlegir hlutir. Að sama skapi teljum við að sýna megi fyrirhyggju í fjármálum en jafnframt örva efnahagslífið.“ Einnig sagðist hann telja að hæfni okkar Norðurlandabúa til að læra hvert af öðru væri kostur þegar kæmi að því að viðhalda velferðinni og þróa hana áfram.

„En orðræðan um Norðurlöndin er að einhverju leyti mörkuð fortíðarþrá; við lítum óþarflega mikið um öxl.“

Stubb lagði áherslu á mikilvægi þess að geta endurnýjað hlutina og skoraði á áheyrendur, sem voru óvenju margir í þingsalnum þennan dag, að verja umfram allt hina opnu samfélagsgerð Norðurlanda. Samfélagsgerð sem er opin fyrir nýjum lausnum og hugmyndum um hvernig lifa skuli lífinu.