Milljón fræsöfn

26.02.18 | Fréttir
Svalbard Globale frøhvelv
Ljósmyndari
Mari Tefre/Svalbard Globale frøhvelv
Tímamót urðu í sögu alþjóðlegu fræhvelfingarinnar á Svalbarða þegar fjöldi fræsafna sem þar eru í geymslu náði einni milljón.

Í dag eru fulltrúar genabanka víðs vegar að úr heiminum saman komnir á Svalbarða til að fagna tíu ára afmæli Alþjóðlegu fræhvelfingarinnar og gjöfulu samstarfi á þeim árum sem liðin eru. Alþjóðlega fræhvelfingin á Svalbarða er mikilvægur hlekkur í þeirri viðleitni að varðveita erfðaauðlindir úr plönturíki heimsins til framtíðar. Rúmlega sjötíu fræbankar eiga fræsöfn í hvelfingunni á Svalbarða og nú er rúmlega ein milljón frætegunda varðveitt þar.

Alþjóðlega fræhvelfingin á Svalbarða hefur starfað í tíu ár. Hvelfingin er afskekkt, köld, dularfull og það sem mestu máli skiptir – afar örugg. Norsk stjórnvöld áttu frumkvæði að byggingu hennar en þrír aðilar koma að rekstri hennar: Norsk stjórnvöld, samtökin Crop Trust og Norræna erfðaauðlindastofnunin.

Norræna erfðaauðlindastofnunin (NordGen) starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Norræna ráðherranefndin er virkur bakhjarl þess mikilvæga starfs sem unnið er hjá Alþjóðlegu fræhvelfingunni. 

„Hvergi annars staðar í heiminum hefur hópur landa sett erfðaauðlindir sínar úr plönturíkinu undir sameiginlega forsjá og veitt frjálsan aðgang að þeim. Ýmsar ástæður eru fyrir því að okkur tókst þetta á Norðurlöndum og kemur traust þar við sögu. Okkar á milli ríkir gagnkvæmt traust, við berum traust til ráðamanna og við höfum tiltrú til framtíðarinnar,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. 

Það var í júní 2006 sem Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra Noregs, tilkynnti að ákveðið hefði verið að byggja fræhvelfingu á Svalbarða. Þeirri ákvörðun til staðfestingar helltu forsætisráðherrar norrænu landanna fimm, sem viðstaddir voru, fræjum í táknrænt glerrör með steinum frá því svæði á Svalbarða þar sem til stóð að reisa Alþjóðlegu fræhvelfinguna.

Nú tíu árum síðar var hornsteinninn opnaður á ný, ekki til að fjarlægja hann heldur til að bæta við fleiri fræjum. Jon Georg Dale, landbúnaðar- og matvælaráðherra Noregs, setti athöfnina eftir að þeir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, höfðu bætt við norrænum fræjum í rörið.

Að því loknu færðu fulltrúar fræbanka víðs vegar að úr heiminum hvelfingunni táknræn fræsöfn frá heimahögum þeirra.