Norðurlandaráð: Bann við örplasti í snyrtivörum

25.01.17 | Fréttir
Hanna Kosonen
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Norðurlandaráð leggur nú drög að allsherjarbanni við örplasti í snyrtivörum. Um er að ræða neytendamiðaða tillögu og verði hún að veruleika mun hún marka Norðurlöndum stöðu sem forystusvæði í heiminum hvað varðar löggjöf um plastnotkun.

Hanna Kosonen (C) frá Finnlandi, formaður sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs, leggur áherslu á að í tillögunni felist ekki krafa um að draga umtalsvert úr magni örplasts í sjó og vötnum, en henni fylgi skýr skilaboð þrátt fyrir það.

„Bann sem þetta sendir skýr skilaboð til atvinnulífs og stefnumótandi aðila annars staðar í heiminum. Það beinir kastljósinu að neikvæðum áhrifum örplasts og kann að flýta fyrir pólitískum aðgerðum og ákvörðunum, bæði mönnum og umhverfi til góða,“ segir Kosonen. 

40 tonn í sjónum

Samkvæmt skýrslunni „Sources of microplastic pollution to the marine environment“ enda 40 tonn af örplasti, sem bætt hefur verið í snyrtivörur, í hafinu árlega í Noregi einum saman. Sambærilegar tölur hafa birst í Danmörku. Bæði neytenda- og umhverfisverndarsamtök og aðilar úr plastiðnaðinum, sem Norðurlandaráð leitaði álits hjá í ferlinu, líta bann við örplasti í snyrtivörum jákvæðum augum.

Undanfarið hefur plastmálið verið fyrirferðarmikið í umræðum flokkahópanna í Norðurlandaráði. Það var flokkahópur jafnaðarmanna sem átti frumkvæði að tillögunni, en örplastið hefur einnig verið á dagskrá hjá flokkahópi miðjumanna.

Bíldekk stærsta vandamálið

Hanna Kosonen segir engan vafa á því að sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs muni áfram beita sér fyrir því að draga úr plastúrgangi og ofnotkun plasts.

„Margir vita ekki að bíldekk eru helsti orsakavaldur örplasts í höfunum okkar. Kannski mætti beina athyglinni að þeim með samnorrænum aðgerðum. Sem stendur vinnum við úr tillögu flokkahóps miðjumanna um að draga úr plastúrgangi á Norðurlöndum, meðal annars plastpokum og plastefnum sem ekki eru niðurbrjótanleg,“ segir Kosonen.

  • Tillagan um norrænt bann við örplasti í snyrtivörum verður rædd á þingfundi á vorþingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi dagana 3.-4. apríl.