Norrænu jafnréttisráðherrarnir taka þátt í fundi kvennanefndar SÞ

19.02.15 | Fréttir
Pappaledighet
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Aðra vikuna í mars verða norrænu jafnréttisráðherrarnir viðstaddir árlegan fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Þann 11. mars taka ráðherrarnir þátt í pallborðsumræðum um hlutverk karla í jafnréttisbaráttu.

„Karlar gegna mikilvægu hlutverki við að styrkja stöðu kvenna, t.d. í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Við eigum góð dæmi um slíkt frá norrænu löndunum og viljum gjarnan deila þeim í New York,“ segir Manu Sareen, jafnréttisráðherra Danmerkur og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál árið 2015.

Í nýrri samstarfsáætlun sinni vísa jafnréttisráðherrarnir m.a. til karla í hefðbundnum kvennastéttum. Með því að vega á móti hefðbundinni kynjaskiptingu vinnumarkaðarins efla karlar í hefðbundnum kvennastéttum starfsmöguleika beggja kynja, en samfara því minnkar kynbundinn launamunur sem stafar af kynjaskiptingu á vinnumarkaði.

„Gleymum því ekki að jafnari skipting umönnunarstarfa inni á heimilinu eflir hvort tveggja, möguleika kvenna á vinnumarkaði og karla í föðurhlutverkinu. Margir karlmenn vilja verja meiri tíma með börnum sínum,“ segir Manu Sareen.

Pallborðsumræður með norrænu ráðherrunum fara fram í Dag H.-salnum í höfuðstöðvum SÞ, miðvikudaginn 11. mars klukkan 11:30–12:45 að staðartíma. Sent verður beint út frá umræðunum á www.norden.org.

Jafnrétti hefur áhrif á hagkerfið

Rík þátttaka beggja kynja á vinnumarkaði er grundvallarforsenda hagvaxtar, en stefnan í jafnréttismálum hefur einnig áhrif á fjármál einstaklinga. Í tengslum við árlegan fund kvennanefndar SÞ (CSW) efnir Norræna ráðherranefndin til málþings sérfræðinga um jafnrétti sem mikilvæga efnahagslega breytu, þar sem kynnt verða mismunandi sjónarhorn á jafnrétti sem forsendu hagvaxtar og velferðar.

Sérfræðingaumræðurnar fara fram í Dag H.-salnum í höfuðstöðvum SÞ, mánudaginn 16. mars klukkan 13:15–14:30 að staðartíma.

Þema hins árlega fundar kvennanefndar SÞ (CSW), sem fram fer í 59. skipti 9.–20. mars 2015, er að fylgja eftir kvennaráðstefnu SÞ í Peking árið 1995. Norrænu jafnréttisráðherrarnir munu kynna norræn sjónarmið á fundinum í New York.