Nýtt lífhagkerfi á Eystrasaltssvæðinu: Nýtnin höfð í fyrirrúmi

02.10.14 | Fréttir
The Bioeconomy starts here!
Norræn tengslamyndun og þýskur fjárstyrkur voru leidd saman á málþingi um lífhagkerfi sem haldið var í Berlín. Þetta var þriðja málþingið í röð sem ætlað er að greiða fyrir sjálfbæru lífhagkerfi á Eystrasaltssvæðinu.

Norræna ráðherranefndin vinnur að myndun samstarfsneta um lífhagkerfið á svæðinu en nefndin sér um verkefnisstjórní þverfaglegri aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um málefni Eystrasaltssvæðisins (EUSBSR).

Málþingið var haldið í húsakynnum norrænu sendiráðanna í Berlín í september 2014. Þar var kastljósinu beint að því hvernig megi ná langt með litlum tilkostnaði ef réttir aðilar eru leiddir saman og hlúð að frjóustu hugmyndum þeirra.

Norrænt samstarf og þýskt fjármagn

Sú staðreynd að málþinginu skyldi valinn staður í sameiginlegum húsakynnum norrænu sendiráðanna í Berlín er í raun táknræn fyrir nýja lífhagkerfið þar sem starfið felst í nýrri nálgun á viðfangsefnin.

„Samstarf okkar hefur augljóslega gert það að verkum að hvert og eitt Norðurlandanna hefur styrkt tengsl sín við Þýskaland og þýskan markað, sem er okkur öllum mikilvægur,“ sagði Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Berlín, í ávarpi sínu þegar hann setti málþingið.

Og Norðurlöndin standa andspænis ansi þróttmiklum leikmönnum sunnar í álfunni. Þýska ríkið veitir 2,4 milljörðum evra í rannsóknir fyrir lífhagkerfið á tímabilinu 2011–2016.

„Við lítum á lífhagkerfið sem stefnumótandi fjárfestingu sem muni auka samkeppnishæfni okkar. Það snýst um meira en það eitt að finna aðra orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis,“ sagði Daniela Thrän prófessor á málþinginu en hún situr í þýska lífhagkerfisráðinu.

Fjárveitingar Norrænu ráðherranefndarinnar til þróunar lífhagkerfis á Eystrasaltssvæðinu eru aðeins brot af fjárfestingu Þjóðverja en ráðherranefndin velur þá leið að byggja starf sitt á viðskiptavild og myndun tengslaneta í löndunum við Eystrasalt.