Poul Nielson, fyrrum ráðherra og framkvæmdastjóri hjá ESB, rannsakar norræna vinnumarkaðinn

24.04.15 | Fréttir
Norræna ráðherranefndin hefur falið Poul Nielson, fyrrum ráðherra í Danmörku og fyrrum meðlimi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að gera heildarrannsókn á norræna vinnumarkaðsgeiranum.

– Þegar maður sér og heyrir rætt um Norðurlönd á alþjóðavettvangi er þeim oft lýst á jákvæðum nótum sem tilraunastofu í samfélagsmálum og sem aðlaðandi stað í heiminum. Við höfum um margra ára skeið litið á skipulag vinnumarkaðarins sem sjálfgefinn hlut. Við hefðum ekki komist á þann stað þar sem við erum nú ef við hefðum ekki mótað metnaðarfull markmið og nú er kominn tími til að setja okkur ný markmið til framtíðar, segir Poul Nielson.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, rökstyður valið á Nielson þannig að starf hans í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og það að hann hafi gegnt ýmsum mikilvægum stöðum í dönskum stjórnmálum gefi honum ákveðið vægi sem nýtist við verkið.

– Nú verður varpað ljósi á svið sem löngum hefur verið miðlægt í norrænu samstarfi en sem hefur lent í skugganum af þróun mála í Evrópu á síðustu árum, segir Høybråten.

Að ósk vinnumarkaðsráðherra Norðurlanda á athugunin að stuðla að auknu skuldbindandi samstarfi á Norðurlöndum. Nánar tiltekið á athugunin að skila tillögum um möguleika norræns samstarfs í tengslum við mál sem varða ESB og EES, en einnig hvað varðar önnur alþjóðamál, sérstaklega þau sem tengjast að einhverju leyti OECD og Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO).

Einn þáttur í starfi Poul Nielsons verður að setja af stað verkefni sem stuðla að því að framfylgja markmiðum Norrænu ráðherranefndarinnar um að skapa atvinnu og draga úr atvinnuleysi, um samþætt atvinnulíf og gott vinnuumhverfi. Einn hluti þeirrar athugunar verður að kanna þríhliða samstarfið á Norðurlöndum.

– Ég hlakka til að takast á við verkefnið og til þess að starfa með Norrænu ráðherranefndinni og öllum öðrum sem málinu tengjast víðsvegar á Norðurlöndum, segir Poul Nielson.

Snemmsumars og haustið 2015 ætlar Nielson að heimsækja öll Norðurlöndin auk Færeyja,Grænlands og Álandseyja til að hitta að máli vinnumarkaðsráðherra og aðila vinnumarkaðarins. Þessu til viðbótar eru fyrirhugaðir fundir með yfirmönnum opinberra stofnana, fræðimönnum, stjórnmálaskýrendum og öðrum aðilum sem hafa áhrif á norrænt samstarf í vinnumarkaðsmálum.

Rannsóknin verður hin þriðja af þessu tagi á norrænum vettvangi. Fyrst kom svonefnd Stoltenberg-skýrsla um tækifæri í norrænu samstarfi í varnar- og öryggismálum (2009) sem Thorvald Stoltenberg, fyrrum varnarmála- og utanríkisráðherra Noregs, tók saman. Bo Könberg, fyrrum félagsmálaráðherra í Svíþjóð, tók saman Könberg-skýrsluna um norræn heilbrigðismál (2014).