Samstarfsráðherrar vilja efla frjálsa för og verslun á milli landanna

19.06.24 | Fréttir
Ljósmyndari
Ken Hermann

Samstarfsráðherrarnir hittust í Malmö dagana 18.–19. júní ásamt framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í þessari viku koma ráðherrar frá öllum Norðurlöndunum saman til sumarfunda á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Samstarfsráðherrar Norðurlanda, sem bera meginábyrgð á starfsemi ráðherranefndarinnar, hittust í Malmö dagana 18.–19. júní.

Samstarfsráðherrarnir bera meginábyrgð á því að móta langtímastefnu norræns samstarfs. Hlutverk þeirra er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og gildum norrænu landanna og tryggja aukna samþættingu og samstarf á svæðinu. Framtíðarsýn Norðurlanda er að verða sjálfbærasta og best samþætta svæði í heimi fyrir árið 2030. Samstarfið innan Norrænu ráðherranefndarinnar á að stuðla að því með áherslu á græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd.

Öflugur sameiginlegur vinnumarkaður

Ráðherrarnir hófu sumarfundinn 2024 með þátttöku í 70 ára afmælisráðstefnu hins samnorræna vinnumarkaðar sem er samstarf norrænu landanna, þ.a. Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Grænlands, Færeyja og Álandseyja.

Hinn samnorræni vinnumarkaður stuðlar að frjálsri för vinnuafls á milli landanna. Stofnað var til þessa samstarfs árið 1954 og felur það í sér ýmiss konar hagræði og samninga sem auðvelda íbúum norrænu landanna að stunda atvinnu í öðru norrænu landi. Áhersla er á að bæta starfskjör, stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði og vinna gegn atvinnuleysi á Norðurlöndum.

Við munum spýta í lófana þegar kemur að því að ryðja stjórnsýsluhindrunum úr vegi og skapa betri tækifæri á svæðinu. Það á að vera einfalt að búa, stunda nám og vinnu og reka fyrirtæki á öllum Norðurlöndum og þvert á landamæri,

segir Jessika Roswall, ESB-ráðherra Svíþjóðar sem ber ábyrgð á málefnum Norðurlanda. 

Markvisst unnið að afnámi stjórnsýsluhindrana

Samstarfsráðherrarnir funduðu jafnframt með Stjórnsýsluhindranaráðinu sem vinnur að því að greina og afnema hindranir á milli norrænu landanna. Vinnu að frjálsri för og afnámi stjórnsýsluhindrana er beint að stærri málum sem skipta sköpum varðandi samþættingu innan Norðurlanda. Unnið er að því að efla pólitískan stuðning og samstarf við ráðuneyti í einstökum löndum og yfirvöld ásamt svæðisbundnum aðilum og atvinnulífinu. Mikilvægur hluti vinnunnar felst í upplýsingagjöf til almennings og fyrirtækja um réttindi þeirra og tækifæri í norrænu löndunum.

Saman erum við öflugri

Góður árangur hefur náðst í norrænu samstarfi sem sýnir að við erum á réttri leið og við getum byggt ofan á þann árangur til þess að styrkja samstarf okkar á svæðinu hvort sem það er í tengslum við loftslagsvandann, nýjan heimsfaraldur eða aðrar samfélagslegar krísur.

Við stöndum frammi fyrir mörgum erfiðum málum samtímis. Loftslagsvandinn, heilbrigðisvandinn, ógnir gegn lýðræðinu og hækkandi meðalaldur. Norræn samvinna skiptir sköpum til þess að við getum í sameiningu fundið sjálfbærar lausnir. Þegar við vinnum saman erum við sterkari en hvert í sínu lagi,

segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Á sumarfundi sínum í Malmö sammæltust ráðherrarnir um sameiginleg markmið og áherslur í norrænu samstarfi fram til ársins 2030. Markmiðin koma fram í væntanlegri samstarfsáætlun vegna Framtíðarsýnar okkar 2030 fyrir árin 2025-2030, sem kynnt verður haustið 2024 á Norðurlandaráðsþingi.

Meira um samstarf Norðurlanda:

Ljósmyndari
Ken Hermann
Ljósmyndari
Ken Hermann
Ljósmyndari
Ken Hermann
Ljósmyndari
Ken Hermann