Skráning hafin á þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi

17.09.14 | Fréttir
Video
Ljósmyndari
Søren Sigfusson/norden.org
Skráning blaðamanna á þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 28.–30. október er hafin. Þingið er stærsti umræðuvettvangur ársins fyrir þingmenn, forsætisráðherra, leiðtoga stjórnarandstöðu og fagráðherra frá öllum Norðurlöndum.

Hvernig geta Norðurlandaþjóðirnar nýtt sér betur samstarf landanna á sviðum menntunar, aðlögunar og vinnumarkaðar? Grundvallarþættir norræna velferðarkerfisins verða í brennidepli á leiðtogafundi forsætisráðherra og þingmanna landanna við upphaf þingsins. Málefni vinnumarkaðarins koma fyrir í ýmsum tillögum sem Norðurlandaráð tekur til meðferðar á þinginu.

Í tengslum við þingið verður haldinn fundur norrænu forsætisráðherranna auk þess sem þeir funda með kollegum sínum frá Eystrasaltsríkjunum og ennfremur með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Þá munu samstarfsráðherrarnir og utanríkisráðherrarnir funda með forsætisnefndinni. Auk þessa munu fjármála-, umhverfis-, viðskipta og menningarráðherrarnir funda meðan á þinginu stendur.

Á miðvikudeginum munu fjármálaráðherrarnir sitja fyrir svörum í sérstökum fyrirspurnatíma sem helgaður er fjármálum. Meðal annarra dagskrárliða þann daginn er þingumræða um stefnu í alþjóða- og öryggismálum.

Afhending verðlauna Norðurlandaráðs

Verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent miðvikudaginn 29. október. Verðlaunaafhendingin fer fram í ráðhúsinu í Stokkhólmi og verður hún í öruggum höndum sjónvarpsmannsins vinsæla Marks Levengood. Að henni lokinni verður blaðamannafundur og tækifæri til myndatöku.

Sama kvöld koma handhafar bókmennta-, barna- og unglinga-, kvikmynda-, tónlistar- og náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs fram í sjónvarpsþætti sem sendur verður út af þessu tilefni í öllum Norðurlöndunum.

Blaðamenn sem vilja fylgjast með þinginu og verðlaunaafhendingunni verða að skrá sig á þessari síðu í síðasta lagi 23. október. Gilt blaðamannaskírteini er nauðsynlegt.

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur norrænna þingmanna. Á árlegu haustþingi fer fram pólitísk umræða milli Norðurlandaráðs og fulltrúa ríkisstjórnanna í Norrænu ráðherranefndinni. Hægt er að fylgjast með þinginu á Twitter undir kassamerkjunum #nrsession og #nrpol.