Stóra norræna loftslagsáskorunin hafin!

11.11.14 | Fréttir
Vindkraftverk i Frederikshavn
Ljósmyndari
Tom Jensen/Frederikshavn kommun
Í dag, 11. nóvember, á Norræna loftslagsdeginum, verður stóru norrænu loftslagsáskoruninni ýtt úr vör. Þetta er leikandi létt en um leið fræðandi keppni milli skóla á Norðurlöndum. Markhópurinn er 12-14 ára nemendur á Norðurlöndum (6.-8. bekkur í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi og 7.-9. bekkur í Noregi og á Íslandi).

Nemendurnir keppa með því að læra að lifa á sjálfbærari hátt. Bekkirnir mæla meðal annars varma-, vatns- og orkunotkun sína á keppnistímabilinu og þeim sem tekst að minnka notkun sína mest hlotnast auðvitað stig fyrir þann árangur.

Auk þess að vera keppni er loftslagsáskorunin metnaðarfullt og viðamikið upplýsingaverkefni. Á vef Loftslagsáskorunarinnar er mikið námsefni sem hægt er að nota í náttúruvísinda- og samfélagsgreinum.

 

Keppnin er haldin innan ramma verkefnisins Norðurlönd í skólanum og er hluti af starfi Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði græns vaxtar. Markmiðið er að fá eins marga skóla og bekki á Norðurlöndum og hægt er til að taka þátt og þannig breiða út áhuga og þekkingu á sviði orku- og umhverfismála.

Keppnin stendur fram til 12. mars 2015, sem er dagur Norðurlanda. Veitt verða verðlaun, hvort tveggja í einstökum löndum og á Norðurlöndum sem heild, meðan á keppninni stendur.