Nordic-Baltic Youth Summit: Framtíðarsýn ungs fólks fyrir Norðurlönd

14.10.24 | Fréttir
Ljósmyndari
norden.org

250 leiðtogar úr röðum ungs fólks komu saman í fyrsta sinn á Nordic-Baltic Youth Summit í Vilníus í Litháen dagana 27.–28. september 2024. 

Ungt fólk vill vera í lykilhlutverki þegar kemur að framtíð svæðisins. Þess vegna kom ungt fólk frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum saman á ráðstefnu í fyrsta sinn í september. Þetta eru skilaboð frá þeim um aukið samstarf og aðgerðir á fimm sviðum: friðar- og öryggismálum, lýðræði, stjórn æskulýðssamtaka, loftslagsbreytinga og velferð ungs fólks.

Dagana 27.–28. september 2024 bauð skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Litháen ásamt ungmennaráði Litháens og landsráði ungmennasamtaka í Svíþjóð 250 ungum leiðtogum til ráðstefnunnar Nordic-Baltic Youth Summit sem haldin var í fyrsta sinn í Vilníus, höfuðborg Litháens.

Þessi fundur felur í sér mikilvægt tækifæri fyrir ungt fólk til þess að láta rödd sína heyrast en einnig til þess að leika lykilhlutverk í framtíð svæðisins

Helén Nilsson, framkvæmdastjóri skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Litháen
Ljósmyndari
norden.org

Fimm málefni

Markmiðið er að koma upp hefð fyrir verkefnum undir stjórn ungs fólks sem stuðlað geta að samstarfi á milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna og skilað sér í beinum aðgerðum í stefnumótun. Fulltrúar á ráðstefnunni voru frá Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Íslandi, Lettlandi, Litháen, Noregi, Svíþjóð, Grænlandi, Álandseyjum og Færeyjum. Það var ungt fólk sjálft sem valdi helstu umfjöllunarefnin í lýðræðislegu ferli undanfarið ár. Niðurstaðan var að fjalla um fimm þemu: ungt fólk, friðar- og öryggismál, lýðræði, stjórnun æskulýðssamtaka, loftslagsbreytingar og velferð ungs fólks.

Ljósmyndari
norden.org


Ungt fólk, friðar- og öryggismál: Við þurfum aukinn viðnámsþrótt!

Þátttakendur lögðu áherslu á þörfina á betri menntun og tækjum til þess að ungt fólk geti lagt sitt af mörkum til alþjóðlegs viðnámsþróttar. Tillögurnar fólu í sér aukna fræðslu um krísuviðbrögð og samfélagslegan viðnámsþrótt ásamt því að takast betur á við aðlögun innflytjenda, meðal annars með jafningjaleiðsögn á vegum sveitarfélaga. Einnig voru lagðar til aðgerðir í tengslum við fjölmiðlalæsi og gagnrýna hugsun til þess að stemma stigu við upplýsingaóreiðu sem stuðlar að skautun í samfélaginu og öfgahyggju meðal ungs fólks.

 

Lýðræði: Við viljum kjósa þegar við erum 16 ára!

Þátttakendur töldu litla kosningaþátttöku og skort á fulltrúum ungs fólks í kosningum vera ógn við lýðræðið. Tillögur fólust m.a. í því að lækka kosningaaldurinn niður í 16 ár, taka upp ungmennakvóta á þjóðþingunum, efla pólitíska fræðslu í skólum og hvetja stjórnmálamenn til aukinna samskipta við ungt fólk með því að heimsækja byggðarlög og skóla.

Stjórnun æskulýðssamtaka: Við þurfum aukinn stuðning! 

Þátttakendur bentu á þörfina á bættri stjórn, fjármögnun og þróun frjálsra félagasamtaka. Tilmæli fólust í því að koma upp ESB-gátt fyrir fjármögnunartækifæri fyrir frjáls félagasamtök, veita ákveðnu hlutfalli vergrar þjóðarframleiðslu til verkefna sem tengjast ungu fólki og börnum ásamt því að skipuleggja sýndarkosningar í skólum til þess að ýta undir þátttöku ungs fólks í ákvarðanatöku.

Loftslagsbreytingar: Það verður að takmarka losun koldíoxíðs meira! 

Ungt fólk lýsti áhyggjum af því að fyrirtæki taki ekki ábyrgð á losun koldíoxíðs og af neikvæðum umhverfisáhrifum skynditísku. Tillögurnar fólust í því að setja þak á koldíoxíðslosun fyrirtækja, fella loftslagsmál inn í námskrár, skattleggja framleiðendur skynditísku og efna til herferða til þess að stuðla að upplýstri neyslu.

Velferð ungs fólks: Við viljum brúa kynslóðabilið!

Þátttakendur bentu á vaxandi bil á milli yngri og eldri kynslóða sem hefur í för með sér aukna einangrun, einmanaleika og mismunun á grundvelli aldurs og tekna. Tillögurnar miðuðu að því að koma á samtali á milli kynslóða til þess að auka gæði og seilingu frjálsra félagasamtaka og verkefna sem stuðla að andlegri heilsu.

Ljósmyndari
norden.org

Þessi æskulýðsfundur er aðeins byrjunin og helsta úrlausnarefnið til framtíðar er að koma þessum tillögum áleiðis til stjórnvalda og skapa rými þar sem ungt fólk getur með beinum hætti unnið að þeim.

Helen Nilsson

Haldið verður áfram á Nordic-Baltic Youth Summit 2025

Norræn og baltnesk æskulýðssamtök munu koma saman á ný á næsta ári þegar Finnland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og heldur Nordic-Baltic Youth Summit 2025.

Ljósmyndari
norden.org
Ljósmyndari
norden.org
Ljósmyndari
norden.org