Norðurlönd tryggi aðgang að nauðsynlegum málmum og steinefnum

04.10.24 | Fréttir
Ljósmyndari
Norden
Norðurlönd þurfa að tryggja aðgengi sitt að málmum og steinefnum sem eru mikilvæg fyrir hin grænu umskipti, aðfangaöryggi og viðnámsþol okkar. Þetta var meginefni fundar norrænu atvinnuvegaráðherranna þar sem einnig var undirrituð ný yfirlýsing um norrænt samstarf á sviði iðnaðar.

Sænska formennskan í Norrænu ráðherranefndinni stóð í dag að ráðherrafundi norrænna atvinnuvegaráðherra þar sem ræddar voru lausnir um hvernig koma megi á norrænu samstarfi varðandi málma og steinefni. Fundurinn var haldinn í sænsku námunni Sickla gruva sem staðstett er rétt utan við Stokkhólm. Þar gátu ráðherrarnir skoðað nokkur af þeim steinefnum sem nauðsynleg eru í hinum grænu umskiptum og sjálfbærum lausnum í orkumálum.

Sjálfbær framleiðsla á vörum getur skapað öflugt samkeppnishæft norrænt vörumerki. Við búum yfir jarðfræðilegum möguleikum og þekkingu sem þarf fyrir framleiðslu steinefna sem nauðsynleg eru í grænu umskiptunum og til að tryggja stöðu Norðurlanda í alþjóðlegum virðiskeðjum.

Ebba Busch, varaforsætisráðherra og orkumála- og atvinnuvegaráðherra Svíþjóðar

Nauðsynleg hráefni framtíðarinnar

Á fundinum var staðhæft að aðgengi að málmum og steinefnum værir grundvallarmál hvað varðar markmið Norðurlanda og ESB í loftslagsmálum og stafvæðingu fyrir árið 2030. Sjálfbær nýting á steinefnaauðlindum Norðurlanda, þ.m.t. uppbygging viðnámsþolinna virðiskeðja, mun minnka þörfina á innflutningi steinefna frá öðrum löndum. Þetta styður hin grænu umskipti og stuðlar að viðnámsþoli Norðurlanda auk þess að opna leiðir fyrir útflutning á nýskapandi lausnum. 

Aðfangaöryggi stuðlar að viðnámsþoli Norðurlanda

Við lifum því miður á óvissutímum og við ófyrirsjáanlega geópólitíska stöðu þar sem Norðurlönd geta ekki alltaf treyst á að þær ríkisstjórnir og þau lönd sem við höfum til þessa átt í viðskiptum við verði öryggir viðskiptavinir til framtíðar. Ráðherrarnir voru sammála um að ef Norðurlönd geta treyst á aðgengi að hráefnum frá steinefnum sem unnin eru innan svæðisins muni það leiða til aukins aðfangaöryggis og gera okkur minna háð öðrum löndum. 

Græn norræn útflutningstækifæri

Græn umskipti eru orðin samkeppnisforskot rétt eins og græn stefna er orðin efnahagsstefna. Fyrirtæki sem hefja snemma þróun vöru og þjónustu sem fylgir lítil losun munu geta nýtt markaðstækifæri í hnattrænu hagkerfi lítillar losunar. 

Saman getum við tryggt aðfangaöryggi og viðnámsþrótt okkar með aðgengi að málmum og steinefnum, sem eru svo nauðsynleg í hinum grænu umskiptum og fyrir samkeppnishæfni Norðurlanda,

sagði Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar á fundinum.

Samstarfinu er ætlað að auka gagnkvæman skilning norrænu landanna og atvinnulífs á virðiskeðjum og efnahagskerfum og skapa tækifæri til marka sig saman á alþjóðavísu.  

Ný yfirlýsing um norrænt samstarf á sviði iðnaðar

Til að undirstrika mikilvægi náins samstarfs um atvinnuvegi á Norðurlöndum svo að viðhalda megi viðnámsþrótti, samkeppnishæfi og fókus á græn umskipti á svæðinu, samþykktu ráðherrarnir á fundinum nýja yfirlýsingu um norrænt samstarf á sviði iðnaðarmála. Hún undirstrikar sameiginlegar áherslur landanna og möguleika á að skapa norrænt notagildi.