Sameiginlegar áskoranir Québec-fylkis og Norðurlanda – fjölmennt málþing um sjálfbæra þróun á norðurslóðum

21.01.15 | Fréttir
Norræna ráðherranefndin og fylkisstjórn Québec í Kanada efna í sameiningu til stórs málþings með yfirskriftinni „International Symposium on Northern Development“ dagana 25.–27. febrúar 2015 í Québec-borg. Meginþema málþingsins er sjálfbær þróun norðlægra svæða.

Þótt Québec sé landfræðilega fjarlægt Norðurlöndum eiga svæðin það sameiginlegt að stórir hlutar þeirra liggja á norðurslóðum. Af því leiðir að svæðin standa frammi fyrir ýmsum sameiginlegum áskorunum. Viðfangsefnin tengjast þróun hrjóstrugra og viðkvæmra land- og hafsvæða, loftslagsbreytingum og aukinni eftirspurn eftir efnahagsþróun sem á eftir að breyta samfélögum Québec og Norðurlandanna nú og til framtíðar.

Breið samstaða ríkir um að hagvöxtur og samfélagsþróun eigi að byggja á grundvallarhugmyndum um sjálfbærni. Rammi málþingsins helgast af því að Québec og Norðurlönd standa frammi fyrir svipuðum úrlausnarefnum og eiga sameiginlegt að vilja takast á við þau með sjálfbærni að leiðarljósi.

Fjögur meginþemu ráðstefnunnar

Á fyrsta degi málþingsins verður fjöldi vinnustofa. Annan og þriðja daginn fara fram umræður sérfræðinga og stjórnmálamanna. Umfjöllunarefnin verða:

1. The North, a living environment                 

2. The North, a physical territory                     

3. The North, a place for economic development

4. The North, a place for knowledge, training and research

Málþingið markar upphaf að nýju og áhugaverðu samstarfi Norðurlanda við þau grannsvæði sem liggja að Atlantshafi. Málþingið er vettvangur til að marka norræna styrkleika og gildi á sviðum sjálfbærs hagvaxtar, nýsköpunar, loftslagsmála, endurnýjanlegrar orku, umhverfismála, menntamála og gagnsæis, þar sem um 25 framsögumenn frá Norðurlöndum flytja erindi (frá norrænum stofnunum, háskólum, atvinnulífi, félagasamtökum, Norrænu ráðherranefndinni o.fl). Frá Québec kemur einnig fjöldi framsögumanna sem kynna þróunaráætlun fylkisins fyrir norðurslóðir með yfirskriftinni Plan Nord og styrkleika svæðanna á sviði sjálfbærrar þróunar.

Málþingið sækja stjórnmálamenn, embættismenn, fulltrúar háskóla og atvinnulífs, félagasamtaka og íbúa Québec og Norðurlanda. Það er hugsað sem fundarstaður til að skiptast á þekkingu og reynslu á sviði sjálfbærni.   

Meðal viðburða í tengslum við málþingið má nefna opnunarathöfn þann 25. febrúar þar sem Philippe Couillard, forsætisráðherra Québec, og Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, flytja ávörp

Meðal framsögumanna á málþinginu eru: Ólafur Ragnar Grímsson (forseti Íslands); Vincent Rigby (formaður embættisnefndar Norðurskautsráðsins); Bjarke Ingels, arkitekt (hjá BIG: Bjarke Ingels Group) og Minik Rosing (prófessor við Kaupmannahafnarháskóla).

Hagnýtar upplýsingar:

Staður og tími:     Québec City Convention Center, Québec, Kanada, 25.–27. febrúar 2015

Twitter:   Fylgist með málþinginu á rauntíma á Twitter (ath. með frönsku tali) PlanNord