Henriikka Tavi

Henriikka Tavi
Ljósmyndari
Heini Lehväslaiho
Henriikka Tavi: Toivo. Ljóðasafn, Teos, 2011.

Titill þriðju ljóðabókar Henriikka Tavis, Toivo (Vonin), getur virst þversagnakenndur. Myrkur og angurvær þráður gengur í gegnum ljóðin sem taka á viðfangsefnum á borð við dauðann, hverfulleika og missi. Þversögnin verður áþreifanlegust í öðrum hlutanum sem ber sama titil og bókin sjálf og sem lýkur með kaldranalegri upptalningu á nöfnum einstaklinga sem látið hafa lífið fyrir eigin hendi og fæðingar- og dánarárum þeirra.

Tavi hefur sagt frá því í viðtali að uppruna ljóðasafnsins, sem varð til á nokkuð löngum tíma, megi meðal annars rekja til fjölskylduharmleiks. Toivo er engu að síður verk sem ekki á og heldur ekki er hægt að lesa í þröngum sjálfsævisögulegum skilningi. Mikilvægustu textatengslin eru við Sommerfugledalen (Fiðrildadalurinn), frægan sonnettusveig dönsku skáldkonunnar Inger Christensen. Fiðrildið kemur ítrekað fyrir í ljóðum Tavis sem tákn um hvað lífið er hverfult og brothætt en jafnframt vegna þess hversu fagurt það getur orðið og vegna þess umbreytingarkrafts sem það býr yfir. Bæði fyrsta og síðasta ljóðið í safninu bera titilinn „Kehtolaulu“ (Vögguvísa), fjögur erindi með fjórum ljóðlínum þar sem taldar eru upp mismunandi fiðrildategundir. „Haapaperhonen, hallakehrääjä/kylmäperhonen, havununna/heinähukka, hukkasiili/-käs, herukka rukka, lasisiipi.“ („Litli fjólnir, haustspinnir,/haustfiðrildi, barrskóganunna,/brómberjaspinnir, grábrúnt tígris/-fiðrildi,/garðaberjavesalingur, glærufiðrildi.“)