Friður og öryggi á norðurslóðum meginþema á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík

17.10.24 | Fréttir
Ljósmyndari
Nikolaj Bock/norden.org
76. þing Norðurlandaráðs verður haldið í Reykjavík 28.–31. október. Meginþema umræðna á þinginu verður Friður og öryggi á norðurslóðum. Þetta verður meðal annars þemað á fundi norrænu forsætisráðherranna og Norðurlandaráðs og hjá erlendum gestaræðumönnum.

Á undanförnum tveimur árum hafa málefni sem tengjast öryggis- og varnarmálum verið mjög fyrirferðarmikil hjá forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Með aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO og innrás Rússlands í Úkraínu hefur mikilvægi þess að ræða þessi mál í norrænu samhengi aukist. Á þingi Norðurlandaráðs verður meðal annars fjallað um það með hvaða hætti Norðurlönd geti sem best tryggt frið og öryggi á Norðurlöndum og norðurslóðum.

„Ég held að það hafi aldrei verið mikilvægara en nú að við tökum höndum saman á Norðurlöndum og ræðum hvað það er sem einkennir okkur sem svæði og hvernig við getum staðið saman á þessum ólgutímum,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, forseti Norðurlandaráðs.

Friðarvinna og loftslagsmál mikilvæg

Oddný G. Harðardóttir, varaforseti Norðurlandaráðs, bendir á að mikilvægt sé að gleyma ekki vinnu Norðurlanda að friðarmálum þegar rætt sé um öryggi.

„Metnað okkar til þess að vinna gegn loftslagsbreytingum, sem koma hraðar í ljós á norðurslóðum en víðast annars staðar í heiminum, má einnig heimfæra upp á vinnu okkar fyrir friði og öryggi,“ segir hún.

Norrænt stjórnmálafólk kemur saman í Reykjavík

Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík koma allir 87 þingmenn Norðurlandaráðs saman til að ræða tillögur sem liggja fyrir og hlýða á greinargerðir norrænna ráðherra um vinnuna á mismunandi málefnasviðum undanfarið ár. Venju samkvæmt koma halda norrænu forsætisráðherrarnir jafnframt fund á þinginu auk þess að taka þátt í umræðum í þingsal.

Einnig verða formennskuáætlanir næsta árs í Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni kynntar á þinginu.